Sálfræðiþjónusta
Hlutverk sálfræðings heilsugæslunnar er að þjónusta skjólstæðinga stöðvarinnar og aðstandendur þeirra þegar þörf er á.
Heilsugæslan Kirkjusandi leggur áherslu á þverfaglega teymisvinnu. Sálfræðingur vinnur því í nánu samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir stöðvarinnar, skóla og félagsþjónustuna.
Starf sálfræðings skiptist í aðalatriðum í tvennt, klíníska vinnu og fræðslu. Í klínískri vinnu greinir sálfræðingur vandamál skjólstæðinga í samvinnu við þá sjálfa, lækna og/eða hjúkrunarfræðinga. Þá fræðir sálfræðingur skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra, þegar það á við, um eðli vandamálsins og veitir þeim sálfræðilega meðferð og stuðning.
Markmið heilsugæslunnar við Lágmúla er að bjóða upp á árangursríka og hagkvæma sálfræðiþjónustu, byggða á vísindalegum kenningum sem hafa verið sannreyndar með árangursrannsóknum, bæði í meðferð og greiningu, er nefnist hugræn atferlismeðferð (HAM).
Ekki er um langtímameðferð að ræða heldur mat sálfræðings á vanda sem þarf að fást við og í framhaldinu 6-8 viðtöl.
Greitt er fyrir hvert viðtal eins og í venjulegri komu á heilsugæslu.
Hugræn atferlismeðferð Ath vegna Covid19 ástands er þessi meðferð ekki í boði.
Hugræn atferlismeðferð (HAM) er meðferð sem byggir á traustum vísindalegum grunni og hefur reynst mjög vel við ýmis konar geð- og hegðunarröskunum. Með HAM er reynt að vinna markvisst að ákveðnu afmörkuðu vandamáli hverju sinni. Lögð er áherslu á að komast að við upphaf meðferðar hvað kemur vandamálinu af stað, hvað viðheldur því og hvaða afleiðingar vandinn hefur í för með sér. Meðferðin krefst náinnar samvinnu sálfræðings og skjólstæðings, þar sem skjólstæðingur er virkur þátttakandi í sinni meðferðarvinnu.
Læknar heilsugæslunnar vísa málum áfram til sálfræðings eftir viðtal við lækni.
Sálfræðimeðferð fyrir börn og unglinga
Samningur er við Litlu Kvíðameðferðarstöðina í Síðumúla 13 um meðferð barna og unglinga. Hér er ekki um langtímameðferð að ræða. Hafa þarf tilvísun frá heimilislækni.
Tími fæst yfirleitt innan mánaðar og er um að ræða greiningarviðtal og viðtöl allt að 5 skipti eftir greiningu. Heilsugæslan greiðir fyrir þennan fjölda viðtala.
Ný meðferðarleið í boði
Heilsugæslan Kirkjusandi hefur í tengslum við sérstaka tímabundna fjármögnun frá Heilbrigðisráðuneyti gert samning við minlidan.is sem veitir sálfræðilega aðstoð á netinu. Einnig er þar möguleiki á fjarviðtölum í vissum tilvikum en meginmeðferðin fer fram gegnum netið með 10 tíma stöðluðum meðferðareiningum. Í boði er meðferð við kvíða, þunglyndi, félagskvíða og lágu sjálfsmati. Hvert þessara atriða er sjálfstæð eining. Meðferðin er almennt ætluð eldri en 18 ára.
Í boði er frír prufutími hjá minlidan.is.
Heilsugæslan Kirkjusandi greiðir fyrir þessa meðferð en hafa þarf tilvísun og undangengið mat heimilislæknis í flestum tilfellum.
Heimasíðan er www.minlidan.is
Opnunartími
- Mánudaga - föstudaga 08:00 - 17:00